Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður segir það slæmt hve lítið traust fólk virðist bera til Alþingis og annarra stoða ríkisvaldsins. „Hægt er að líta á þetta frá mismunandi hliðum. Ég held að lengi vel bárum við Íslendingar kannski of mikið traust til okkar stofnana og til stjórnmálamanna. Ég held einnig að ein af orsökum alþjóðlegu bankakreppunnar hafi verið skortur á gagnrýninni hugsun. Viðvörunarbjöllur eiga að hringja þegar fólk situr í stjórnum fjármálafyrirtækja, skilur ekki hvað er í gangi í rekstri þeirra en segir ekkert af ótta við að líta asnalega út. Þetta hefur breyst mikið frá hruninu, en fólk má ekki ganga of langt í hina áttina. Stjórnmálamenn eru ekki fullkomnir frekar en annað fólk, en ég held að það sé hreinlega skaðlegt fyrir lýðræðið ef fólk gengur út frá því að allir stjórnmálamenn séu spilltir og óheiðarlegir. Ég veit að svo er ekki – það er langt frá því að vera satt – en vantraust af þessari stærðargráðu er skaðlegt.“

Hann segir stjórnmálamenn þurfa að vinna mikla vinnu til að endurheimta þetta traust og þar segist hann halda að samskipti við kjósendur og gagnsæi sé mjög mikilvægt. „Þannig tel ég að við í Sjálfstæðisflokknum eigum að taka upp á eigin vegum ákveðið ferli þar sem farið verður yfir fjármál þeirra sem vilja bjóða sig fram fyrir hönd flokksins og metið hvort þau séu í réttum farvegi. Eins hef ég aldrei skilið af hverju skuldir eru ekki teknar með í hagsmunaskráningu þingmanna. Sá sem skuldar er miklu háðari lánardrottni sínum en eignamaður eignum sínum. Við eigum líka að skoða það hvort ekki sé skynsamlegt að láta eignir og skuldir maka fylgja með í hagsmunaskráningu. Ástæðan fyrir því að það var ekki gert er vegna sjónarmiða um sjálfstæði maka en tengslin eru augljós.“

Ítarlegt viðtal er við Guðlaug Þór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .