Auglýst er eftir umsóknum fyrir fjögur hátt sett störf í þjónustukjarna nýrrar byggðar í Hvammsvík á forsíðu Atvinnublaðsins í dag. Störfin sem um ræðir eru Rekstrarstjóri, sölu- og markaðsstjóri, aðalbókari og umsjón með kerfum og fasteignum.

Skúli Mogensen er á bak við verkefnið, en þrjátíu lóðir á svæðinu sem hann bauð til sölu í september síðastliðnum seldust upp nær samstundis. Þær eru frá hálfum og upp í heilan hektara og á þeim má reisa allt að 300 fermetra hús. Á svæðinu verða meðal annars veitingastaður, sjóböð og gististaður auk annarrar afþreyingar.

Rekstrarstjórinn mun bera ábyrgð á daglegum rekstri sjóbaðanna og gistingarinnar, sölu- og markaðsstjórinn sér um uppbyggingu vörumerkisins með áherslu á stafræna markaðssetningu og þróun „einstakrar upplifunar“ og viðburða.

Umsjónarmaðurinn þarf að vera sjálfstæður og geta gengið í öll tilfallandi verkefni í tengslum við fasteignir og dælustöðvar, og bókarinn ber eins og við má búast ábyrgð á bókhaldi, launavinnslu, innheimtu og innkaupum, en starfsstöð hans verður í Reykjavík, með viðveru í Hvammsvík.