Fyrirtækið Northern Lights Energy hefur selt 20 eintök af lúxusbílnum Tesla Model S hér á landi. Fyrstu tveir bílarnir voru afhentir í vikunni en fleiri verða afhentir í þessum mánuði og í þeim næsta. Ódýrasti bílinn kostar frá 11,8 milljónum króna og upp í 13,8 milljónir.

Á meðal þeirra sem fullyrt er á vefsíðunni plugincars.com að hafi tryggt sér eintak eru Skúli Mogensen, eigandi Wow air, Ragnar Agnarsson, eigandi Saga Film, Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, hagfræðingurinn Heiðar Már Guðjónsson, Þormóður Jónsson, stjórnarformaður auglýsingastofunnar Fíton, Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, og tónlistar- og framkvæmdastjórinn Eyþór Arnalds, sem jafnframt er formaður bæjarráðs Árborgar.

Gísli Gíslason sem flytur bílana inn segir í samtali við Fréttablaðið að nú sé vitundarvakning hér á landi og sé verið að setja upp hleðslustöðvar um allt land. Hann telur um 40 rafbíla vera hér á landi. Bílarnir keyra um 150 til 200 kílómetra á hleðslunni. Gísli bætir því við í samtali við plugincars.com að hann hafi pantað 50 bíla frá Bandaríkjunum og sé búist við að 25 skili sér hingað fyrir jól.