Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og Samkeppniseftirlitið eru þær stofnanir sem forsvarsmenn atvinnulífsins eru hvað ósáttastir við. Á sama tíma eru Lögreglan, Umferðarstofa og Vinnueftirlit ríkisins þær stofnanir sem sami hópur er sáttastur við.

Þetta kemur fram í skýrslu Samtaka atvinnulífsins (SA) um samkeppnislögin, framkvæmd þeirra og viðhorf atvinnulífsins sem kynnt var fyrir stundu á fundi SA á Hilton Nordica.

Félagsmenn SA voru fyrir skemmstu spurðir um viðhorf til 20 eftirlitsaðila með fyrirtækjum á Íslandi. Fyrir utan óánægju með framangreindar stofnanir kemur fram að því matskenndari og óljósari sem lög, reglur og heimildir eftirlitsstofnana eru þeim mun meiri er óánægjan.

„Athugasemdir berast frá fyrirtækjum um að þau hiki við að leita til Samkeppniseftirlitsins vegna þess neikvæða viðhorfs sem þeim finnst ríkja þar í garð atvinnulífsins,“ segir í skýrslunni.

„Mjög er kvartað undan því hvað mál taki langan tíma í meðförum enda geta liðið mörg ár frá því að rannsókn yfirvalda hefst þar til endanleg niðurstaða fæst, sérstaklega ef mál fara til úrskurðar áfrýjunarnefndar og síðar dómstóla. Þetta veldur þeim sem til rannsóknar eru miklum erfiðleikum. En þessi langi tími er ekki síður erfiður þeim sem sent hafa ábendingu eða kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að þeim finnst á sér brotið á markaðnum.“

Þá er einnig bent á það í skýrslunni að aðgerðir og afgreiðslur Samkeppniseftirlitsins séu ekki fyrirsjáanlegar.