Danski Skype-milljarðamæringurinn Morten Lund hefur keypt liðlega helming hlutafjár í félaginu sem gefur út Nyhedsavisen í Danmörku af Baugi Group og hyggst leggja félaginu til aukið fé en umtalsvert tap mun enn vera á rekstrinum. Í frétt Børsen kemur fram að Morten Lund hafi keypt 51% í Dagsbrun Media, af Baugi Group en að Baugur eigi áfram hinn hlutann á móti Lund og muni áfram sitja í stjórn félagsins.

”Þetta er stórkostlegur möguleiki. Fjölmiðlar um allan heim eru að ganga í gegnum gerbreytingar og Nyhedsavisen er hluti af því. Margir sögðu að það myndi aldrei ganga upp að gefa út ókeypis dagblað í Danmörku sem væri dreift heim til fólks en það hefur gert það. Og nú, þegar við höfum sýnt fram á það, erum við reiðubúin að halda áfram á næsta stig,” segir Morten Lund.