Hugsanlegt er að slitabú föllnu bankanna þurfi að greiða samtals mörg hundruð milljarða króna í sérstakt gjald til ríkisins vilji þau fá undanþágu frá fjármagnshöftum til þess að greiða erlendum kröfuhöfum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að samkvæmt heimildum blaðsins sé gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi tillögum framkvæmdastjórnar stjórnvalda um afnám hafta að útgöngugjaldið verði 35%, þar sem talið sé eðlilegt að þau greiði fyrir slíkan forgang í formi skattlagningar. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hver skattprósentan verður.

Einnig kemur fram að fyrstu tillögur um losun fjármagnshafta muni lúta að aðgerðum til að taka á aflandskrónuvandanum og tilslökunum fyrir beinar erlendar fjárfestingar innlendra aðila úr landi og lengri tíma fjárfestingar í erlendum verðbréfum.