„Við getum ekkert sagt,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, sem fundaði í Seðlabankanum í dag. Hún vildi ekkert tjá sig um efni fundarins. Slitastjórnin hefur unnið að því að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftum í tengslum við nauðasamninga Glitnis og sendi Seðlabankanum bréf þessa efnis í nóvember í fyrra. Undanþágubeiðnin var ítrekuð í ágúst á þessu ári og fékk svar til baka í september. Þetta er fyrsti fundur slitastjórnarinnar í Seðlabankanum eftir bréfaskiptin.

Steinunn sagði í samtali við VB.is ekkert verða gefið upp um efni fundarins að svo stöddu. Kröfuhöfum verði gerð grein fyrir efni fundarins fyrst í bréfi á vef slitastjórnar í kvöld.

Fram kom í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar í morgun að kröfuhafar föllnu bankanna geti ekki reitt sig á að niðurfærsla krónueigna þeirra um 75% dugi til. Niðurfærslan geti verið meiri eða minni, að sögn Bloomberg.