Slitastjórn Landsbankans hefur skorað á alla kröfuhafa bankans að lýsa kröfum fyrir 30. október næstkomandi. Slitastjórnin hefur ennfremur boðað kröfuhafafund þann 23. nóvember 2009.

Þeir sem lýsa kröfum í búið teljast hafa fallist á brottfall þagnarskyldu, þ.e. bankaleyndar, að því er varðar viðkomandi kröfu.

Á kröfuhafafundinum verður fjallað um skrá um lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar til þeirra að því leyti sem hún liggur þá fyrir. Skráin verður aðgengileg þeim sem lýst hafa kröfum á hendur bankanum innan tilskilins frests.

Fundurinn mun einnig fjalla um greiðslustöðvun Landsbankans. Greiðslustöðvunin fékkst upphaflega þann 5. desember sl. en fékkst framlengd og verður tekin fyrir að nýju hjá héraðsdómi Reykjavíkur þann 26. nóvember.

Slitastjórn Landsbankans var skipuð nýlega eftir lagabreytingu skömmu fyrir þingslit. Slitastjórnina skipa þau Kristinn Bjarnason hrl., Halldór H. Backman hrl. og Herdís Hallmarsdóttir hrl.