Slitastjórn Kaupþings er með í skoðun að höfða skaðabótamál á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings með sama hætti og slitastjórnir hinna gömlu viðskiptabankanna hafa gert. Skaðabótamál hefur enn ekki verið höfðað.

„Það er í skoðun,“ segir Feldís Óskarsdóttir, sem sæti á í slitastjórn Kaupþings.

Slitastjórn Kaupþings vinnur jafnframt að riftun á endurkaupum á skuldabréfum bankans árið 2008. Stjórnin hefur sent út bréf til þeirra sem áttu bréfin, bæði innlendum og erlendum aðilum. Í kjölfarið verður væntanlega sendar út stefnur í málunum.

„Þetta er riftanlegur gjörningur að okkar mati,“ segir Feldís.

Þetta eru sambærileg mál og slitastjórnir Glitnis og Landsbankans hafa höfðað. Slitastjórn Glitnis hefur höfðað 20 tuttugu riftunarmál vegna gjörninga sem áttu sér stað hálfu ári áður en bankinn féll. Um er að ræða 20 milljarða króna. Málið var þingfest 24. maí síðastliðinn. Slitastjórn Landsbankans hefur sömuleiðis höfðað nokkra tugi mála af sama toga.

Feldís vildi hvorki segja til um það hversu mörg bréf hafi verið send út né um hversu háar upphæðir sé að ræða.