Héraðsdómur úrskurðaði í gær að íslenska ríkið skyldi greiða konu um 3,6 milljónir króna vegna bílslyss sem hún varð fyrir við bensínstöð í október 2012. Konan, sem var starfsmaður Landspítalans, hafði komið við á bensínstöðinni á leið sinni heim úr vinnu. Hún var metin til 18% varanlegs miska og 15% varanlegrar örorku vegna slyssins.

Konan hélt því fram að hún ætti rétt á bótum vegna slysatryggingar ríkisstarfsmanna, í ljósi þess að tryggingin nær til slysa sem starfsmenn verða fyrir á eðlilegri leið milli vinnustaðar síns og heimilis. Ríkið hélt því aftur á móti fram að konan hefði verið í einkaerindum með því að koma við á bensínstöðinni.

Órjúfanlegur þáttur í notkun bifreiða

Í dómi héraðsdóms segir að konan hafi verið á leið norður Gullinbrú þegar hún ákvað að beygja inn á þjónustustöð Olís sem liggur á horni götunnar og Fjallkonubrautar. Af gögnum málsins verði ráðið að frá umræddri þjónustustöð sé hægt að aka beint aftur inn á Gullinbrú. „Verður háttsemi stefnanda í umræddu tilviki þannig fyllilega jafnað til þess þegar ökutæki er ekið inn á þjónustu- eða bensínstöð sem liggur samsíða götu eða vegi, svo sem algengt er bæði í þéttbýli og dreifbýli,“ segir í dómnum.

„Alkunna er að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við á þjónustustöðvum olíufélaga, svonefndum bensínstöðvum, svo sem til að taka eldsneyti eða sinna bifreiðum sínum, en einnig getur verið um að ræða ýmsar náttúrulega þarfir ökumannsins sjálfs. Verður að líta á stöðvanir við slíkar stöðvar sem órjúfanlegan þátt í notkun bifreiða.

Þótt ökumaður rjúfi för sín í stuttan tíma og víki nokkra tugi metra frá því sem annars myndi vera venjulegur ferill hans á leið milli vinnustaðar og heimilis verður af þessum ástæðum að telja hann eftir sem áður á eðlilegri leið milli umræddra staða," segir í dómi Héraðsdóms.