Mikill urgur er meðal smærri fjármálafyrirtækja vegna tilkynningar Samtaka fjármálafyrirtækja , sem send var út í gær sem svar við gagnrýni Samkeppniseftirlitsins á bankakerfið. Í bréfi, sem gengið hefur manna á milli í þessum smærri fyrirtækjum segir meðal annars að tilkynning SFF endurspegli ekki sjónvarmið allra fjármálafyrirtækja sem aðild eigi að samtökunum og að ekki hafi verið haft samráð við öll aðildarfyrirtækin áður en tilkynningin var send út.

Þá kemur í bréfinu fram að með tilkynningunni sé SFF notað sem tæki til þess að koma sjónarmiðum viðskiptabankanna þriggja á framfæri, en þau samrýmist ekki hagsmunum allra aðildarfyrirtækjanna. Að lokum segir í bréfinu að tilkynning SFF vekji upp spurningar um hvort smærri fjármálafyrirtæki eigi heima í samtökunum. Er rætt um það í þessum hópi hvort taka eigi málið upp innan stjórnar SFF.

SFF og eftirlitið tókust á í fjölmiðlum í gær

Tilkynning SFF, sem bar titilinn „Umræða um rekstrarkostnað á villigötum“ Beindist að umfjöllun um háan rekstrarkostnað viðskiptabankanna þriggja í skýrslu Samkeppniseftirlitsins . Í skýrslunni segir að þessi kostnaður á árunum 2009 til 2011 gefi til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt.

Í tilkynningu SFF segir að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins sé ekki gerð tilraun til að leiðrétta fyrir kostnaði sem annars vegar komi til vegna aukinnar skattlagningar á bankana og hins vegar vegna yfirtöku þeirra á smærri fyrirtækjum. Sé tekið tillit til þessara þátta sé réttara að tala um að kostnaðaraukning bankanna þriggja á árunum 2009 til 2011 nemi fimm milljörðum króna en ekki átján milljarða.

Samkeppniseftirlitið svaraði sjálft tilkynningu SFF og sagði hana styðja við vísbendingar um að samkeppni sé áfátt. Umfjöllun SFF bendi ekki til að stóru bankarnir þrír hafi meðtekið þann boðskap sem Samkeppniseftirlitið hafi viljað koma á framfæri með umfjöllun um rekstrarkostnað og vaxtamun banka. Athuganir Samkeppniseftirlitsins bendi til þess að aðhald með rekstri þeirra sé minna en almennt í rekstri á öðrum sviðum hagkerfisins eftir hrun. Aðeins virk samkeppni er líkleg til að knýja bankana til að deila ábata af hagræðingu með viðskiptavinum sínum.