Smásala í Bretlandi jókst meira í maímánuði heldur en búist hafði verið, sem er vísbending um að stýrivaxtahækkanir Englandsbanka hafi ekki náð að halda aftur af kaupgleði almennings þar í landi. Söluaukningin nam 0,4% á milli mánaða - sem er um 3,9% á ársgrundvelli - en í aprílmánuði hafði hins vegar smásala dregist saman um 0,1%. Greiningaraðilar höfðu að meðaltali gert ráð fyrir því að smásala myndi aukast um 0,3%.

Söluaukningin í maímánuði þýðir að smásala hefur aukist um 1,1% undanfarna þrjá mánuði, sem er 4,4% meiri sala heldur en á sama tímabili og í fyrra. Á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC) er haft eftir Peter Newlands, hagfræðingi hjá verðbréfafyrirtækinu Lehman Brothers, að hann búist við því að einkaneysla muni hægja meira á sér á seinni hluta þessa árs.

Sala í öllum smásölugeirum jókst í síðasta mánuði, ef undan er skilið vefnaðarvörur, föt og skófatnaður, en sala í þeim vörutegundum dróst saman um 2,5% frá því í aprílmánuði. Mesta söluaukningin var hins vegar í heimilisvörum þar sem salan jókst um 2,9%.

Sérfræðingar gera fastlega ráð fyrir því að þessar nýju tölur um aukningu í smásölu muni hafa sitt að segja þegar kemur að næstu stýrivaxtaákvörðun Englandsbanka. Stýrivextir í Bretlandi eru nú 5,5%, en bankinn hefur hækkað vexti fjórum sinnum frá því í ágúst á síðasta ári, um 25 stig í hvert skipti. Í samtali við breska blaðið Financial Times segist Howard Archer, hjá ráðgjafafyrirtækinu Global Insight, spá því að stýrivextir Englandsbanka muni hækka upp í 5,75% í síðasta lagi í ágústmánuði næstkomandi.

Einkaneysla almennings er þó ekki eina áhyggjuefni Englandsbanka. Sumir sérfræðingar telja að væntingar almennings séu þær að verðlag muni hækka umfram verðbólgumarkmið stjórnvalda um tvö prósent og af þeim sökum eigi fólk eftir að bregðast við með því að krefjast hærra launa og þar með auka enn frekar á undirliggjandi verðbólguþrýsting sem er til staðar.