Fyrirtækið Fáfnir Offshore hefur samið við norskt fyrirtæki um smíði og hönnun tveggja öflugra skipa sem ætluð eru til þjónustu olíuiðnaðar í norðurhöfum. Fyrirtækið hefur fengið annað skipið afhent sem í fyrstu mun annast gæslu- og björgunarstörf við Svalbara, en skipið ber nafnið Polarsyssel.

„Skipið er í Tromsö og við förum væntanlega um miðnættið af stað til Svalbarða,“ segir Steingrímur Erlingsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Fáfnis Offshore, í samtali við Morgunblaðið. Skipið verður við eftirlit á Svalbarða út nóvember en eftir það fer skipið til verkefna fyrir olíuiðnaðinn. Verið er að smíða skrokk hins skipsins í Tyrklandi og verður hann afhentur í janúar. Verður það stærra og öflugra en Polarsyssel.

Áætlaður kostnaður við smíði Polarsyssel er um 6,3-6,5 milljarðar króna, en seinna skipið verður heldur dýrara. Steingrímur segir nokkur verkefni í skoðun fyrir skipin en hefur ekki áhyggjur af verkefnaskorti. „Ég hef verið útgerðarmaður á togara og þótt þetta verkefni snúist um að veiða samninga en ekki fisk þarf sama veiðieðlið.“