Með því að hækka olíuverð hefur verið sett strik í reikning olíusmyglara í Írak, segir olíumálaráðherra Írak, Hussein al-Shahristani, en olíusmygl er talið fjármagna skæruhernað þar í landi, segir í frétt Financial Times.

Með því að hækka olíuverð á Íraksmarkaði borgar það sig síður fyrir smyglara að flytja olíu út fyrir landamæri Íraks, en verðið hefur nú verið tólffaldað á einu ári, úr 1,45 kr. í 13 kr. á lítra.

Shahristani sagði ennfremur að olíuframleiðsla í suðurhluta Írak væri sífellt að aukast og væntir hann þess að olíuframleiðsla verði nálægt því þrjár milljónir fata á dag við lok árs.

Shahristani sagði einnig að ríkisstjórnin hygðist leggja fram ný lög sem myndu opna olíuframleiðslu fyrir erlendum verktökum.