Eftir nær óslitinn myndarlegan vöxt einkaneyslu frá árinu 2003 dróst hún saman um 3,2% á 2. fjórðungi frá sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis en þar kemur einnig fram að þetta er í samræmi við vísbendingar í hagvísum á borð við þróun greiðslukortaveltu og innflutning einkabifreiða.

Þá dróst fjárfesting saman á fjórðungnum um 25,8% miðað við sama ársfjórðung 2007.

Í Morgunkorni kemur fram að ríflega 30% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu var í samræmi við væntingar Greiningar Glitnis eftir lok stóriðjuframkvæmda, en Greining Glitnis segir nærri 27% samdráttur í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði vekja athygli eftir 13,5% samdrátt á 1. ársfjórðungi.

„Ljóst virðist að óhagstæð fjármögnunarskilyrði, snöggkólnun á íbúðamarkaði og mikið framboð á íbúðarhúsnæði hafi haft skjót áhrif á íbúðafjárfestingu og má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram. Samneysla eykst hins vegar allmikið líkt og undanfarna fjórðunga, og nam vöxtur hennar á 2. fjórðungi 3,8%,“ segir í Morgunkorni.