Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en óvæntur viðsnúningur varð um kl. 13:30 í New York þegar Standard & Poor´s bankinn spáði fyrir um endi vandræða á undirlánamörkuðum. Á svipuðum tíma hafði únsan á gulli farið yfir 1.000 bandaríkjadali.

Hlutabréf hríðlækkuðu fram undir hádegi og markaðurinn sýndi rauðar tölur. Þar höfðu neikvæðar fréttir af Carlyle Group mest áhrif sem og hringrás lækkana en í dag lækkuðu markaðir út um allan heim eftir lækkun gærdagsins í Bandaríkjunum.

Nasdaq hækkað um 0,9%, Dow Jones hækkaði um 0,3% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,5%.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í kvöld spáir S&P bankinn því heildarafskriftir fjármálastofnana í tengslum við hrunið á markaðnum með bandarísk undirmálslán muni nema samtals 285 milljörðum Bandaríkjadala.

Hins vegar segir bankinn að fjármálastofnanir hafi nú þegar afskrifað stærstan hluta þessarar upphæðar og því sé ólíklegt að tilkynnt verði um frekari afskriftir.

Þá hækkuðu fjárfestingalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac en þeir eru stærstu lánasjóðir í Bandaríkjunum og hafa tekið miklar dýfur við hreyfingu markaða. Þannig hækkaði Fannie Mae um 9,2% og Freddie Mac um 8,9%.

Það kann ef til vill að hljóma mikil hækkun á einum degi og þú svo að slíkar hækkanir séu jákvæðar fyrir markaðinn verður að hafa í huga að þessi tvö fyrirtæki hafa bæði hækkað og lækkað um svipaðar prósentur þegar hreyfing hefur verið á mörkuðum.