Sænsk stjórnvöld hyggjast slíta tengsl sín við fjármálafyrirtækið Carnegie í því augnamiði að endurvekja trúverðugleika ríkisins vegna fyrirhugaðrar einkavæðingaráforma stjórnvalda fyrir milljarða Bandaríkjadala. Carnegie er stærsti fjárfestingarbanki Norðurlandanna en mikil hneykslismál hafa skekið bankann að undanförnu.

Í síðustu viku úrskurðaði sænska fjármálaeftirlitið að framkvæmdastjóra Carnegie og allri stjórn bankans bæri að segja af sér. Auk þess þurfti bankinn að greiða 50 milljónir sænskra króna í sekt. Á þriðjudaginn var greint frá því að sænska fjármálafyrirtækið Invik, sem er í eigu íslenska fjárfestingafélagsins Milestone, hefði tryggt sér 9,7% hlut í Carnegie, en jafnframt hefur útibú Glitnis keypt um 4,5% hlut í bankanum að undanförnu.