Hagstofa Kína tilkynnti í morgun um að íbúum landsins hefði fækkað um 850 þúsund í fyrra og verið um 1,41 milljarðar. Um er að ræða fyrstu fólksfækkun í Kína í tæpa sex áratugi en talið er að þessi þróun muni hafa í för með sér víðtæk áhrif á kínverska hagkerfið sem og heimshagkerfið.

„Þetta eru svo sannarlega söguleg tímamót, upphafið á langtíma fólksfækkun sem ekki er hægt að snúa við,“ hefur Financial Times eftir Wang Feng, sérfræðingi í lýðfræði hjá Unitversity of California.

Í fyrra mátti sjá fyrstu merki um fólksfækkun í opinberum hagtölum en ýmsir lýðfræðingar telja að þessi þróun hefði þegar verið byrjuð.

Í umfjöllun FT segir að hinar ströngu sóttvarnaaðgerðir kínverska stjórnvalda í Covid-faraldrinum sé almennt taldar hafa dregið hraðar úr fæðingartíðni í landinu. Um 9,56 milljónir barna fæddust í Kína í fyrra, samanborið við 10,62 milljónir árið 2021.

Fæðingartíðnin í fyrra var sú lægsta frá því að mælingar hófust fyrir sjö áratugum síðan – 6,77 börn fyrir hverja 1.000 manns.

Neikvæð þróun á fæðingartíðni í Kína er rakin af mörgum til einbirnisstefnunnar sem var innleidd í lok áttunda áratugarins. Árið 2016 voru lög um barneignir rýmkuð þar sem öllum pörum var heimilað að eignast tvö börn í stað eins til þess að stuðla að hærri fæðingartíðni.