Bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pimco var lengi stærsta einstaka skuldabréfsjóðastýringarfyrirtæki heims, en hefur nú misst þann titil. Í umfjöllun Bloomberg er saga fyrirtækisins rakin frá því að Bill Gross, sem var yfirmaður fjárfestinga hjá fyrirtækinu, hætti í mars í fyrra. Stærsti sjóður Pimco, Total Return Fund, var undir beinni stjórn Gross og námu eignir í stýringu hjá sjóðnum alls 293 milljörðum dala árið 2013. Í mars í fyrra, þegar Gross var enn hjá fyrirtækinu voru 231 milljarðar dala í sjóðnum en ári síðar var sjóðurinn kominn niður í 116 milljarða og heldur fé áfram að streyma úr honum. Í ágúst á þessu ári drógu fjárfestar 1,8 milljarð dala úr sjóðnum.

Eins og áður segir var Pimco lengi stærsta rekstrarfélag skuldabréfasjóða í heiminum, en í maí á þessu ári tók Vanguard fram úr Pimco hvað þetta varðar.

Svo samofinn var Gross ímynd Pimco að ekki er furða, að mati greinarhöfundar, að brotthvarf hans hafi haft áhrif á fyrirtækið. Hann hætti störfum hjá Pimco í september í fyrra og hóf störf hjá Janus Capital Group. Bent er á í greininni að fjármagn hafi verið byrjað að streyma úr sjóðnum áður en hann hætti, en ekkert lát hefur orðið á flóttanum síðan.