„Þeir eru ekki enn búnir að setja kvóta á rabarbarann þannig að það er um að gera að nýta það,“ segir Sölvi Óskarsson, sem hefur staðið við búðarborðið undir pípum, sígarettum og tóbaki í tóbaksbúðinni Björk við Laugaveg í 29 ár. Sölvi á landskika í Borgarfirði og ætlar hann að einbeita sér að ræktinni.

Nýr eigandi Bjarkar er Johan Thulin Johansen. Hann er sonur heildsalans Rolf Johansen og bróðir Svövu, sem um árabil hefur verið kennd við verslunina 17. Johan var í tóbaksbúðinni síðdegis í dag þegar vb.is, fréttavefur Viðskiptablaðsins, náði tali af honum. Hann vildi ekki gefa upp kaupverðið.

„Þetta eru mínar ær og kýr. Ég hef aldrei verið tengdur eignaraðild eða forstjórahlutverki í mörg ár og finnst þægilegra að vinna einn með mínu fólki,“ segir Johan og leggur áherslu á að hann hafi um árabil sinnt markaðsráðgjöf í lausamennsku. Nú sé hann orðinn þreyttur á því. Johan segir engin tengsl við heildsöluna Rolf Johansen & Company og muni hvorki hann né hún njóta viðskiptavildar umfram aðra í viðskiptum þeirra.

Með annan fótinn í tóbakinu

Sölvi hefur oftar en einu sinni boðið ríkisvaldinu birginn. Athygli vakti þegar Hæstiréttur úrskurðaði árið 2006 að honum væri heimilt að hafa tóbaksvörur sýnilegar í verslun sinni á meðan það er bannað í öðrum verslunum. Þá hafði hanni barist við kerfið í fjögur ár eftir að honum var gert að hylja tóbaksvörur í versluninni. Hæstiréttur taldi bannið þó ekki ná til tóbaksverslana.

Þótt Sölvi ætli sér að sinna rabarbararæktinni í Borgarfirði eftir söluna þýðir það ekki að hann ætli að snúa bakinu alfarið við tóbaksbúðinni.

„Sölvi hefur boðist til þess af sinni einlægu góðmennsku að vera hér með annan fótinn öðru hverju,“ segir Johan.