Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur athafnamanninum Aroni Karlssyni fyrir fjársvik vegna sölu á fasteign við Skúlagötu í Reykjavík til kínverska sendiráðsins. Fasteignina átti Aron með föður sínum Karli Steingrímssyni, sem um árabil hefur verið kenndur við Pelsinn.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Aron og faðir hans seldu fasteignina í desember árið 2009. Ekki er um neitt smáhýsi að ræða, heldur hús upp á rúma 4.100 fermetra sen stendur beint neðan við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Kaupverðið nam 870 milljónum króna. Á húsinu hvíldu lán frá Arion banka, Glitni og Íslandsbanka, sem var hærra en söluandvirðið. Bankarnir töldu sig hlunnfarna um 300 milljónir króna og kærðu þeir viðskiptin.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra handtók Aron vegna málsins um miðjan janúar árið 2010 og yfirheyrði hann og Karl ásamt lögfræðingi og fasteignasala sem önnuðust viðskiptin. Mönnunum fjórum var öllum sleppt eftir yfirheyrslur.