Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Í viðtalinu fer Gunnar m.a. yfir tíma sinn hjá fjárfestingabankanum Goldman Sachs, þar sem hann starfaði í um tvo áratugi eða þar til hann tók við því embætti sem hann gegnir í dag. Þá fer Gunnar einnig yfir hvernig það hafi verið að taka við embætti á sama tíma og COVID-19 faraldurinn var að taka sér bólfestu hér á landi og hvernig staða hagkerfisins blasi við sér í dag.

Ekki löngu eftir að hafa verið ráðinn sem fastur starfsmaður hjá Goldman Sachs, fyrir um nítján árum síðan, var Gunnar staddur í miðpunkti þeirra hörmunga sem áttu sér stað hinn 11. september árið 2001. Líkt og mörgum er enn í fersku minni hrundu tvíburaturnarnir þennan dag vegna hryðjuverkaárásar, en skrifstofur Goldman Sachs voru staðsettar við sömu götu og því horfði Gunnar á það á vinnustaðnum þegar turnarnir féllu.

„Þetta er sennilega einn erfiðasti dagur sem ég hef upplifað á mínum starfsferli. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég horfði út um skrifstofugluggann yfir austuránna og Brooklyn-brúnna skömmu eftir atburðina. Það voru allar götur troðfullar af fólki sem var að labba heim til sín. Það var í raun verið að tæma neðrihluta Manhattan og það var maður við mann, örugglega tugir þúsunda manna, á götum úti svo langt sem augað eygði. Sorgin var allsstaðar þann dag."

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .