Vandræðagangur og ráðaleysi þjóðarleiðtoga á evrusvæðinu gæti gengið af Evrópusambandinu dauðu. Þetta segir auðkýfingurinn og fjárfestirinn George Soros. Soros sat í gær í pallborði á árlegum fundi Alþjóða efnahagsþingsins sem nú fer fram í Davos í Sviss. Vart verðuer sagt að félagar hans í pallborðinu hafi verið með þeim bjartsýnni en þeir voru bandaríski hagfræðiprófessorinn Nouriel Roubini, sem fékk á sig stimpilinn Dr. Dómsdagur þegar hann varaði við yfirvofandi fjármálahruni í aðdraganda kreppunnar, og Ken Rogoff, fyrrverandi aðalhagfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

George Soros
George Soros
© None (None)

Þremenningarnir sögðu nokkra þætti skýra skuldakreppuna á evrusvæðinu og þau vandræði sem myntbandalagið standi nú frammi fyrir. Augljóst að ráðamenn evruríkjanna geti ekki komið sér saman um lausn á vandanum þar sem þeir hafi engan skilning á lögmálum fjármálamarkaðarins. Á meðal lausnanna sé að draga úr aðhaldsaðgerðum og grípa til aðgerða sem geti skilað af sér hagvexti.

Soros, sem þekktur er fyrir að hafa veðjað á fall breska pundsins fyrir um þrjátíu árum og sumir segja að hafi valdið falli þess, sagði innbyggða galla í evrunni hafa nú komið í ljós auk þess sem evruríkin hafi hagað hagstjórn sinni eins og ríki í þriðja heiminum sem hafi tekið mikið af lánum í erlendri mynt. Hann mælti með því að Spáni og Ítalíu verði gefið leyfi til að fylla upp í fjárlagahalla sinn með útgáfu ríkisskuldabréfa.

Hann greip boltann frá Roubini á lofti, gagnrýndi þær aðhaldsaðgerðir sem Þjóðverjar hafa talað fyrir og sagði þær geta skilað sér í upplausn Evrópusambandsins.