Rannsókn Bergljótar Harðardóttur, sem vinnur að meistararitgerð í umhverfisverkfræði við HÍ sýnir að sótmengun við stofnbrautir í Reykjavík mælist jafnmikil og í stórborgum á við Rotterdam og Helsinki. „Fyrstu vísbendingar eru þær,“ segir Bergljót í samtali við Fréttablaðið en í Rotterdam búa um 650 þúsund manns, meðan í Helsinki búa um 1,4 milljónir manna.

Jafnframt segir Bergljót að einstaklingar í bílum séu berskjaldaðri fyrir sótmengun en þeir sem eru gangandi.„Ég virðist vera að fá hærri gildi þegar ég ek í morgun og síðdegisumferð en þegar ég geng. En rannsóknin er auðvitað háð takmörkunum og það þarf að gaumgæfa þessar vísbendingar betur.“

Bergljót mælir sótmengunina í svifrykinu í borginni, sem kemur til við bruna eldsneytis, með því að ganga og aka Miklubraut frá Lönguhlíð og upp í Skeifu. Sótið er einn eitraðasti hluti svifryksins sem oft liggur yfir borginni, enda er hann fíngerðari en sá hluti sem kemur af óhreinum götum en svifrykið þyrlast upp ef götur eru ekki hreinsaðar reglulega eða ónógt viðhald er á vegum í borginni.