Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) furða sig á ályktun sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Landsfundurinn segir í ályktun um sjávarútvegsmál „[g]rundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar“. En samtökin segja að hér sé vísað til svonefndar óslitinnar virðiskeðju þar sem auðlindin verði aðgengileg þeim sem hafi á hendi sér veiðar, vinnslu og sölu allt til smásölustigs án þess að krafa sé um að afli sé boðinn til sölu á markaði.

„Hin „óslitna virðiskeðja“ þar sem einn og sami aðili heldur á öllum þáttum frá veiðum til endanlegrar sölu á sér fyrirmynd í áætlunarbúskap að sovéskum hætti en á lítið skylt við vestrænan markaðsbúskap, sem byggir á því lögmáli að markaðurinn sé best fallinn til að verðleggja takmörkuð gæði.“

Samtökin segja að það vekji furðu að flokkur sem kenni sig við frelsi og samkeppni skuli hafna markaðslausnum fyrir eina mikilvægustu, gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar.

„SFÚ lýsir furðu sinni á því að flokkur sem kennir sig við frelsi og framtak skuli velja sovéskan áætlunarbúskap umfram frjálsa samkeppni. Heilum aldarfjórðungi eftir að Sovétríkin liðu undir lok þrífst hin sovéska virðiskeðja í íslenskum sjávarútvegi á kostnað frjáls framtaks, samkeppni og þjóðarinnar sjálfrar en í skjóli Sjálfstæðisflokksins.“