Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) mun ekki uppfæra lánshæfiseinkunn Íslands á næstunni. Óvissa sem tengist afnámsáætlun stjórnvalda á fjármagnshöftum veldur því að ekki verður farið í hækkun strax. Bloomberg greinir frá þessu.

Maxim Rybnikov, sérfræðingur hjá S&P í Lundúnum, segir í samtali við Bloomberg að ekki hafi allir kröfuhafar föllnu bankanna gengist að stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda.

„Þrátt fyrir að breiður hópur kröfuhafa virðist hafa samþykkt áætlun stjórnvalda er enn óvissa um hvort einhverjir þeirra hefji málarekstur,“ segir hann. Rybnikov segir að ef það verði almenn sátt meðal kröfuhafa um áætlun stjórnvalda gæti S&P íhugað að hækka lánshæfiseinkunn Íslands.