Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur staðfest lánshæfismat íslenska ríksins en lánshæfishorfur eru enn neikvæðar, segir í nýrri skýrslu frá fyrirtækinu.

S&P staðfestir AA-mínus lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í erlendri mynt og AA-plús í íslenskum krónum. Fyrirtækið segir helstu styrkleika íslenska hagkerfisins vera stöðugar og þróaðar opinberar stofnanir og að staða ríkisfjármála sé góð. Auk þess bendir matsfyrirtækið á að vaxtarhorfur séu góðar.

S&P bendir einnig á að helstu veikleikar séu ójafnvægi í efnahagslífinu, mikill viðskiptahalli og lítið og einhæft hagkerfi.

Matsfyrirtækið breytti lánshæfishorfum ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar í júní síðastliðnum. Í skýrslunni segir að dregið hafi úr ofhitnun og að líklegt sé hagkerfið kólni á næsta ári. S&P telur enn möguleika á harðri lendingu og er það ástæðan fyrir því að lánshæfishorfur eru enn neikvæðar.