Greiningardeild Arion banka spáir því að verðlag í október hækki um 0,5%. Ef spá greiningardeildarinnar gengur eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 3% samanborið við 3,7% í september.

„Bráðabirgðaspá okkar gerði ráð fyrir 0,2% hækkun Vísitölu neysluverðs (VNV) í október en breytinguna frá þeirri spá má rekja til þess að stærsti hluti verðskrárhækkana Orkuveitu Reykjavíkur (OR) kemur fram fyrr en áður var talið,“ segir í markaðspunkti greiningardeildarinnar.

Gjaldskrárbreyting Orkuveitunnar mun leiða til 0,39% hækkunar verðlags.

„Hækkunin skiptist þó í tvo hluta, þ.e. gjaldskrárbreytingu á heitu vatni og rafmagni. En þann 1. október sl. hækkaði verð á heitu vatni (0,27% áhrif á VNV) og sölu rafmagns (0,01 % áhrif á VNV) –heildaráhrif vegna þessara hækkana verða því í kringum 0,28% til hækkunar VNV og koma þá fram í október. Afgangurinn af fyrirhuguðum hækkunum OR, þ.e. sá liður er telst til dreifingar rafmagns, bíður þó enn staðfestingar Orkustofnunnar. Þessi liður kemur því líklega ekki fram fyrr en í fyrsta lagi í nóvember og verða áhrifin í kringum 0,1% til hækkunar VNV.“

Hitareikningur borgarbúa hækkaði um 35% þann 1. október síðastliðinn. Segir að sala á rafmagni hafi einnig hækkað en áhrifin séu óveruleg. Eldsneytisverð hefur verið stöðugt í mánuðinum en hækkaði lítillega stuttu eftir síðustu verðmælingar í september og segir greiningardeildin að sú hækkun muni mælast í október.

Talið er að húsnæðisliður muni draga verðbólguna niður í mánuðinum og að áhrifin verði svipuð og í september, eða um -0,05%.

„Við gerum ráð fyrir að matvöruverð hækki lítillega. Hins vegar höfum við séð áhrif styrkingar krónunnar koma fram að undanförnu og ekki er ólíklegt að einstakir vöruflokkar lækki á móti í október.“