*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 12. ágúst 2019 13:27

Spá 0,9% efnahagssamdrætti í ár

Greiningardeild Arion banka spáir 0,9% efnahagssamdrætti í ár að því er fram kemur í Markaðspunktum bankans.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Arion banka spáir 0,9% efnahagssamdrætti í ár að því er fram kemur í Markaðspunktum bankans. Segir í greiningunni að samdrátturinn sé fyrst og fremst kominn til vegna útflutningssamdráttar.

Til samanburðar spáðum við 1,9% samdrætti í mars, en ýmislegt hefur þróast á hagfelldari hátt en við reiknuðum með síðan þá. Stærstu breytingarnar frá síðustu hagspá eru að tekjusamdráttur ferðaþjónustunnar virðist minni en við óttuðumst, samið var um hóflegri beinar launahækkanir en við væntum og leiðréttar kortaveltutölur Seðlabankans benda til kraftmeiri einkaneyslu en áður var talið. Þá var hagvöxtur á fyrsta fjórðungi kröftugri en við spáðum," segir í greiningunni. 

Þá gerir greiningardeildin ráð fyrir því að viðsnúningurinn fari hægt af stað og að landsframleiðslan vaxi um 1,0% á næsta ári. Einkaneyslan verði ein helsta driffjöður hagvaxtar, studd áfram af raunlaunahækkunum á meðan stígandi atvinnuleysi vinnur á móti. 

Jafnframt kemur fram að verðbólguhorfur hafi batnað umtalsvert frá því í mars, bæði vegna sterkari krónu og hóflegri launahækkana. Þrátt fyrir að verðbólgan verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans helst hún vel innan vikmarka, sem opnar á frekari vaxtalækkanir.