Bæði Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið spá því að íbúðafjárfesting muni dragast saman og að fasteignaverð muni lækka á næstu misserum.

Lengra nær þó samanburðurinn ekki því í reynd er mikill munur á því hvernig sérfræðingar fjármálaráðuneytisins og sérfræðingar Seðlabanka Íslands sjá fyrir þróunina á íslenskum fasteignamarkaði.

Mörgum brá nokkuð við spá Seðlabankans um að fasteignaverð myndi falla um 30% að raunvirði fram til loka ársins 2010 – og raunar fylgdu með þau varnaðarorð af hálfu Seðlabankans að gríðarleg óvissa ríkti um þróunina á fasteignamarkaðnum, m.a. vegna þess að hún kynni að hafa umtalsverð áhrif á útlánagetu fjármálakerfisins.

Af þeim sökum væri „ekki hægt að útiloka enn meiri samdrátt á fasteignamarkaði“, eins og það er orðað í Peningamálum Seðlabankans.

Mikill munur á spám

Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, upplýsti aftur á móti á fundi með blaðamönnum í gær að ráðuneytið gerði ráð fyrir að fasteignaverð myndi lækka um u.þ.b. 15% að raunvirði til loka ársins 2010 þannig að sérfræðingarnir þar á bæ gera ráð fyrir miklu minni lækkun fasteignaverðs en kollegar þeirra kippkorn neðar á Arnarhólnum.

Að vísu sagði Þorsteinn að reiknað væri með skarpri lækkun á þessu ári, eða um 4,5% að nafnverði, sem samsvarar þá um 12% raunlækkun miðað við verðbólguspá ráðuneytisins. En miðað við um 15% lækkun til loka ársins 2010 er ljóst að sérfræðingar fjármálaráðuneytisins sjá fyrir sér að timburmennirnir á fasteignamarkaðnum verði að langmestu leyti teknir út í ár og að þeir verði hvorki eins miklir né langvinnir og þeir seðlabankamenn sjá fyrir sér.

Að vísu taka báðir fram að mikil óvissa fylgi spám um þróunina á fasteignamarkaði en ljóst er að mikið ber engu að síður í milli.