*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 14. október 2020 10:50

Spá 25% atvinnuleysi fyrir jól

Á Suðurnesjum er atvinnuleysið komið í fimmtung og spáð að það muni hækka meir. Atvinnuleysi á landsvísu yfir 10%.

Ritstjórn
Mest atvinnuleysi er á Suðurnesjum og í Reykjanesbæ sjálfum er spáð að atvinnuleysið fari í fjórðung fyrir jól.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt spá Vinnumálastofnunar verður atvinnuleysi í Reykjanesbæ komið í sögulegar hæðir, eða 25% fyrir jól um um fimmtung á Suðurnesjum öllum að því er Morgunblaðið greinir frá. Þar fór atvinnuleysið úr 18 í 19,6% frá ágúst til september og er reiknað með að það fari í 19,8% nú í október.

Skýrsla stofnunarinnar reiknar með að atvinnuleysið nú á landinu sé komið yfir 10%, og muni halda áfram að aukast næstu mánuði. Mældist það 9,8% í september, en þar af eru 9 prósentustig almennt atvinnuleysi, en afgangurinn vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Er búist við að heildaratvinnuleysið verði 10,5% í október og 11,3% í nóvember. Atvinnuleysi erlendra ríkisborgara er um 20%, en 7.671 erlendur ríkisborgari er atvinnulaus í landinu í dag, sem er 41,5% allra atvinnulausra á skrá.

Alls voru 18.443 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu og 3.319 í minnkuðu starfshlutfalli, sem gerir samtals 21.762, við útgáfu skýrslunnar í gær.

Á Suðurnesjum er mun meira atvinnuleysi meðal kvenna en karla, eða 22,5% á móti 17,7%, meðan í Reykjanesbæ er spáð því að heildaratvinnuleysið verði 24,6% í desember, en hjá konum verði það nokkru hærra eða 26,5%.