Greiningardeild Arion banka telur útlit fyrir frekari vaxtahækkanir á árinu og segir flest benda til þess að verðbólga næstu árin verði langt yfir markmiðum Seðlabanka. Í markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að líklegt sé talið að 25 punkta vaxtahækkun verði látin duga í júní, vextir verði óbreyttir í ágúst, en haldi svo áfram að hækka í haust.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir 75 punkta hækkun vaxta til ársloka og að vextir muni hækka um 100 punkta á því næsta.

Líkt og greint var frá í gær hækkaði Seðlabankinn vexti um 50 punkta og eru virkir vextir (meðaltal innistæðubréfa og innlánsvaxta) nú 4,88%.