Uppsveifla efnahagslífsins er í hámarki og spáð er að hagvöxtur haldist áfram mikill í ár og á næsta ári meðan stóriðjuframkvæmdir eru enn umfangsmiklar. Árið 2007 dregur úr hagvextinum vegna samdráttar í framkvæmdum og innlendri eftirspurn. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins fyrir árin 2005 til 2007 auk framreikninga fram til ársins 2010.

Nýja þjóðhagsspá er að finna í skýrslu fjármálaráðuneytisins ?Úr þjóðarbúskapnum" þar sem birtar eru greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2005-2007, meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins.

Í spá fjármálaráðuneytisins kemur fram að reiknað er með að hagvöxtur árið 2005 verði áfram mikill, eða 6,0%, en að hægi á hagvexti árið 2006 vegna þess að dregur úr vexti einkaneyslunnar.

Spáð er að landsframleiðslan aukist um 4,6% að magni til það ár. Árið 2007, þegar dregur hratt úr stóriðjuframkvæmdum og innlendri eftirspurn, er gert ráð fyrir mun hægari hagvexti, eða 2,5%.