Því er spáð í nýrri skýrslu frá hagrannsóknarstofnun auðlinda- og rannsóknar í Ástralíu að heimsmarkaðsverð á áli muni lækka um átta prósent á þessu ári og verði að meðaltali 2.350 Bandaríkjadalir á tonnið. Ástæða lækkunarinnar er rakin til aukins framboðs á heimsmarkaði sökum aukinnar framleiðslugetu í Rússland, Kína og á Íslandi. Búist er við að framboðið á áli á heimsmarkaði aukist um átta prósent. Fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir að álframleiðendur gætu lokað álverum sem eru dýr í rekstri til þess að koma til móts við aukna framleiðslugetu kann það ekki að verða nóg til að stemma stigu við verðlækkunum.

Skýrsluhöfundar spá því að eftirspurn í heiminum verði drifin áfram af hagvexti í Kína. Bent er á í skýrslunni að mikil þörf verði fyrir ál í Kína í fyrirsjáanlegri framtíð og er talið að notkunin muni aukast um 12% á ári fram til ársins 2012. Hinsvegar er spáð minnkandi eftirspurn eftir áli í Bandaríkjunum á árinu.