Reiknað er með því að umferð á vegum landsins aukist um 1,23% á ári fram til ársins 2060 í langtímaspá Vegagerðarinnar. Spáin var síðast endurskoðuð árið 2006 og var þá gert ráð fyrir töluvert meiri vexti. Í spá fyrir árabilið 2005 – 2045 var gert ráð fyrir 1,86% árlegum vexti.

Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir því að árið 2060 verði fjöldi íbúa í landinu á bilinu 385 þúsund til 494 þúsund. Í ljósi þess spáir Vegagerðin því að bílafloti landsmanna verði á bilinu 353 til 537 þúsund. Hverjum bíl verði ekið á bilinu 10,9 til 13,8 þúsund kílómetra árlega og heildaraksturinn gæti því mest orðið um 7,4 milljónir kílómetra.

Skýrsluhöfundar telja að samdrættí í umferðinni sé nú lokið en eftir hrun dró úr bíleign. Bílaeign var mest árin 2007 og 2008, þá voru 763 bílar á hverja þúsund íbúa. Árið 2010 fór bílaeign niður í 745 bíla á þúsund íbúa og undir lok árs 2012 voru 753 bílar á hverja þúsund íbúa landsins. Stefnir í að fyrra með frá árunum 2007 og 2008 verði slegið aftur eftir tvö til þrjú ár.

Í skýrslunni er einnig könnuð fylgni milli aksturs og vergrar landsframleiðslur (hagvaxtar) og mælist mikil fylgni þar á milli. Einnig er mikil fylgni milli kaupmáttar og aksturs. Þá virðist lítil fylgni milli bensínverðs og aksturs. Einnig mælist lítil fylgni á milli heildarfjölda skráðra bíla og aksturs á hvern skráðan bíl.