Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í júní. Gangi spáin eftir hjaðnar tólf mánaða verðbólga úr 2,4% í 2,1%, enda hækkaði VNV um 0,5% í júní í fyrra.

Verðbólguhorfur eru að mati Greiningar allgóðar fyrir yfirstandandi ár. Gert er ráð fyrir því að verðbólgan muni aukast á næsta ári samhliða auknum umsvifum í hagkerfinu. Þó verði verðbólga mun minni næstu ár en hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár.

Lítið er um stóra hækkunarvalda VNV í júní samkvæmt spánni okkar. Stærsti einstaki áhrifavaldurinn er ferða- og flutningaliðurinn. Gerir Greiningin ráð fyrir að hann vegi til 0,06% hækkunar VNV í mánuðinum, sem má meðal annars rekja til hækkunar eldsneytisverðs (0,02% í VNV). Að þessu sinni teljum við að lítil breyting verði á flugfargjöldum til útlanda (0,01% í VNV), og þá þrátt fyrir að talsverð breyting hafi verið í verði á fargjöldum til einstakra áfangastaða, bæði til hækkunar og lækkunar.

Gögn af íbúðamarkaði benda til þess að húsnæðisliður vísitölunnar (0,03% í VNV) muni lítið hækka þennan mánuðinn sem er ólíkt þróuninni sem verið hefur að undanförnu. Vísbendingar af markaði benda til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð húsnæðis, hafi verið óbreytt á milli maí og júní. Samkvæmt verðmælingu okkar mælist lækkun á verði sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu, en aftur á móti hækkun á íbúðaverði á landsbyggðinni og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu.