Nýjustu verðbólgutölurnar sem sýna að verðbólga fór úr 4,8% í febrúar niður í 3,9% í þessum mánuði ættu að falla Seðlabankamönnum vel í geð, að mati Greiningar Íslandsbanka. Í Morgunkorni greiningardeildarinnar er rifjað upp að fram hafi komið við vaxtaákvörðun í síðustu viku að verðbólgumæling hafi verið óhagstæð, hefði verðbólga hjaðnaði hægar en áður var spáð þyrfti að hækka vexti fyrr en ella. Greiningardeildin býst nú við því að stýrivextir verði óbreyttir í ár.

Greining Íslandsbanka segir:

„Verðbólgumælingin núna eykur hins vegar líkur á að verðbólga á 2. ársfjórðungi reynist nálægt þeim 3,5% sem Seðlabankinn spáði í febrúar síðastliðnum. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 3,7% meðalverðbólgu á næsta ársfjórðungi. Meðalverðbólga á 1. fjórðungi ársins var 4,3% en Seðlabankinn hafði spáð 4,0% meðalverðbólgu. Virðist sem styrking krónu frá miðjum febrúar sé þegar farin að koma fram í verði á ýmsum innfluttum liðum, og ef krónan veikist ekki að nýju á næstunni munu slík áhrif skila sér í auknum mæli og stuðla að hóflegri hækkun VNV á komandi mánuðum. Verðbólgumælingin nú styrkir okkur í þeirri spá að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir út árið.“