*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 16. maí 2018 12:43

Spá því að leiguverð hækki á ný

Leiguverð hefur ekki haldið í við fasteignaverðshækkanir frá 2016 vegna þess hve hröð verðþróunin hefur verið.

Ritstjórn
Spáð er allt að 9% hækkun fasteigna í ár, en sérfræðingar segja verðþróun fasteigna svo hraða að leiguverðið haldi ekki í við hana.
Haraldur Guðjónsson

Ari Skúlason sérfræðingur hjá Landsbankanum og Ólafur Heiðar Helgason hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði spá því að húsaleiga eigi eftir að hækka á höfuðborgarsvæðinu. Er ástæðan sú að leiguverðið hefur ekki fylgt kaupverði fasteigna að undanförnu að því er Morgunblaðið segir frá.

„Leiguverð hefur hækkað mikið að undanförnu. Það hefur t.d. hækkað meira en laun,“ segir Ólafur Heiðar en Ari segir að leiguverðið hafi ekki haldist í við fasteignaverð síðan 2016.„Ástæðan fyrir því að leiguverðið hefur ekki haldið í við fasteignaverðið er væntanlega hinar miklu hækkanir á kaupverði. Hraðinn í hækkunum er svo mikill“

Í ár er spáð því að nafnverðshækkun fasteigna verði 6 til 9% og segir Ólafur að samband sé á milli leiguverðsins og kaupverðs fasteigna.

„Við sáum íbúðaverð hækka talsvert hraðar en leiguverð í fyrra. Því þarf ekki að koma á óvart að leiguverð hækki nú tímabundið hraðar en íbúðaverð,“ segir Ólafur Heiðar en hann segir vísbendingar um að íbúðum sem leigt sé til ferðamanna sé hætt að fjölga.

„Gistieiningum á Airbnb fjölgaði mjög hratt árin 2015, 2016 og 2017. Miðað við gögn sem við höfum aðgang að hefur fjöldi þeirra staðnað síðustu mánuði. Þótt við greinum ekki fækkun er ljóst að þeim hefur fjölgað mun minna í vetur en undanfarin ár“