Spænska ríkið undirbýr yfirtöku á Bankia sem er þriðji stærsti banki landsins ef miðað er við eignir. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Líklegt að spænska ríkið muni dæla milljörðum evra, mörghundruð milljörðum króna, af peningum skattgreiðenda inn í bankann. Talsmenn stjórnvalda hafa staðfest að undirbúningur standi nú yfir.

Er þetta þvert á það sem spænsk stjórnvöld sögðu fyrir tveimur vikum þegar haldið var fram að engir frekari peningar þyrftu að koma úr sjóðum ríkisins.

Í kjölfar fréttar um aðstoðina sagði Rodrigo Rato stjórnarformaður bankans, fyrrum fjármálaráðherra Spánar og framkvæmdastjóri hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, af sér.

Miklar verðlækkanir á fasteignum hafa haft mjög slæm áhrif á lánasöfn spænskra banka undanfarin ár.