Greiningardeild Kaupþings spáir áframhaldandi hækkun á vísitölu neysluverðs í næsta mánuði eða sem nemur 0,6% hækkun milli mánaða.

Hækkunina má að mestu rekja til hækkun á fasteignaverði og á eldsneyti. Nái spáin fram að ganga verður tólf mánaða verðbólga í júní 4,1%, samanborið við 4,7% hækkun í maí.

?Hratt hefur dregið úr tólf mánaða verðbólgu á síðustu mánuðum en á sama tíma í fyrra gekk yfir mikið verðbólguskot í kjölfar gengisveikingar krónunnar. Að mati Greiningardeildar er enn talsverður verðbólguþrýstingur í hagkerfinu.

Bjartsýni neytenda er í hæstu hæðum um þessar mundir og á sama tíma hefur líf færst yfir fasteignamarkaðinn. Þá er enn mikil þensla á vinnumarkaði og engin kólnun þar sjáanleg, atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og launahækkanir milli ára að mælast í kringum 10%,? segir hún.