Fasteignabólan í Kína er við það að springa. Þegar hún gerir það verða áhrifin svipuð og í japönsku fjármálakreppunni á tíunda áratug síðustu aldar og munu afleiðingarnar snerta á öllu kínverska hagkerfinu. Þetta er mat bandaríska hagfræðingsins Robert Z. Aliber, fyrrverandi prófessors við Chicago-háskóla.

Aliber sem gefur út lesendabréf um efnahagsmál í ýmsum löndum, segir fasteignabóluna í Kína hafa knúið hagvöxt þar síðustu ár í meiri mæli en talið hafi verið. Bólan sé ósjálfbær og muni á endanum springa.

Í umfjöllun netútgáfu bandaríska tímaritsins Fortune kemur fram að Aliber hafi kynnt sér aðstæður á kínverskum fasteignamarkaði, farið til Peking í heimsókn og skoðað bæði tekjur fólks í samanburði við fasteignaverð. Niðurstaða Alibers er sú að íbúðaeigendur í Peking hagi sér líkt og spákaupmenn eða áhættufjárfestar sem veðji á hækkun fasteignaverðs. Hann telur að þvert á spár muni fasteignaverð í Kína hrynja um sextíu prósent - jafnvel meira - áður en yfir líkur. Það muni draga úr hagvexti í landinu.

Robert Z. Aliber ætti að vera Íslendingum góðu kunnur. Hann hefur komið hingað til lands í tvígang. Í fyrra skiptið kom hann hingað í maí árið 2008. Þá sagði hann Íslendinga þurfa að spenna beltin því landinn ætti erfiða ferð í vændum. Seinna skiptið var í september á síðasta ári.

Umfjöllunina um Aliber og kínverskan fasteignamarkað má lesa hér