Álag á spænsk ríkisskuldabréf hefur hækkað í morgun í kjölfar lækkunar Moody´s á lánshæfismati landsins í gærkvöldi. Álagið á 10 ára bréfum stendur í 6,96% og hefur ekki verið hærra frá upptöku Spánar á evrunni.

Hæst fór það síðast í lok nóvember 2011, í 6,7%, var 6% í ársbyrjun 2011 og 5% sumarið 2008. Miklar sveiflur hafa verið á álaginu undanfarið ár. Til samanburðar er álag á þýsk ríkisskuldabréf til 10 ára 1,14%.

Wall Street Journal segir í vef sínum í dag að álagið á Spán ekki langt frá álaginu á skuldugustu löndum Evrópu fyrir neyðaraðstoð. Það er, á svipuðum slóðum og þegar Írar, Grikkir og Portúgalir óskuðu eftir neyðaraðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu.

Húsnæðisverð heldur áfram að lækka

Mikil lækkun varð á húsnæðisverði á Spáni á fyrsta ársfjórðungi ársins. Nemur lækkunin 12,6% á ársgrundvelli.

Lækkunin á 4 ársfjórðungi 2011 var 11,2% og er lækkunin því skarpari í ár. Húsnæðisverð hefur lækkað um 26% frá hæstu hæðum, árið 2007.