Spænska ríkisstjórnin ætlar að láta þarlenda banka leggja 30 milljarða evra á varúðarreikning vegna fasteignalánakreppunnar sem Spánn hefur glímt við. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

Aðgerðin er hluti áætlunar spænsku ríkisstjórnarinnar til að styrkja innviði bankakerfisins þar í landi og efla trú út á við. Fyrr í vikunni þjóðnýtti spænska ríkisstjórnin stóran banka þar í landi og á nú 45% hlut í bankanum.

Sá háttur verður jafnframt hafður á að þurfi bankar að leita til ríkisins um lánveitingar til að standast fyrrnefnd skilyrði verða lánin veitt með þeim hætti að hægt verði að umbreyta þeim í hlutabréf ríkisins í bankanum.

Að auki ætlar ríkisstjórnin að fá tvö sjálfstæð endurskoðunarfyrirtæki til að meta virði eigna bankanna á fasteignamarkaði.

Hlutabréfavísitalan IBEX lækkaði um tæp 3% eftir að ríkisstjórnin kynnti áformin í dag.