Luis de Guindos, efnahagsráðherra Spánar, vísar þeim vangaveltum út í hafsauga að ríkisstjórnin sé í þann mund að fara niður á hnén og fara bónleið til búðar eftir neyðarláni úr sjóðum Evrópusambandsins á næstu dögum til að fjármagna banka landsins.

Breska útvarpið, BBC, hefur eftir Guindos að mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjárhagsstöðu spænsku bankanna muni ekki liggja fyrir fyrr en í næstu viku og megi vænta fleiri og ítarlegri skýrslna um þá um hálfum mánuði síðar, þ.e. eftir þrjár vikur. Eftir það verður tekin ákvörðun um næstu skref.

BBC og fleiri fjölmiðlar hafa haldið því fram um nokkurt skeið að spænskir bankar standi veikum fótum og þurfi á rúmum 80 milljörðum evra að halda til að uppfylla kröfur um eiginfjárhlutföll. Miðað við það sem haft var eftir Cristobal Montero, fjármálaráðherra Spánar, ætti slíkt að vera erfitt þar sem dyr alþjóðlegra lánamarkaða eru lokaðar Spánverjum.