Svo kann að fara að stjórnvöld á Spáni fari bónleið til Brussel á allra næstu dögum - jafnvel á morgun - og leiti eftir neyðarláni hjá Evrópusambandinu til að endurfjármagna helstu banka landsins. Fjármálaráðherrar evruríkjanna funda um stöðuna á morgun.

Orðrómur var á kreiki um það í dag að spænska ríkisstjórnin hafi hætt við að fara niður á hnén og óska eftir lánafyrirgreiðslu. Í netútgáfu breska viðskiptadagblaðsins Financial Times í dag er hins vegar vitnað til þess að Marta Fernández Currás, ráðherra fjárlaga á Spáni, hafi vísað öllu slíku heim til föðurhúsanna.

Spænskir ráðamenn vísuðu því á bug fyrr í vikunni að þeir væru að undirbúa sig fyrir það að óska eftir lánum frá Evrópusambandinu. Það yrði ekki gert fyrr en sérfræðingar hefðu lokið yfirferð sinni á stöðu spænska bankageirans. Í Financial Times kemur hins vegar fram að stjórnvöld vilji flýta ferlinu og óska eftir fjárhagsaðstoð áður en niðurstaða liggur fyrir í grísku þingkosningunum eftir viku.

Í blaðinu segir ennfremur að ráðamenn aðildarríkja Evrópusambandsins séu enn að karpa um það hversu mikið fjármagn þurfi til að endurfjármagna spænsku bankana. Sumir telji 40 milljarða evra duga til en aðrir að tvöfalt hærri fjárhæð sé nauðsynleg.

Fernández Currás, fjárlagaráðherra Spánar.
Fernández Currás, fjárlagaráðherra Spánar.
Fernández Currás, fjárlagaráðherra Spánar.