Hagkerfi Spánar dróst saman um 0,3% á þriðja ársfjórðungi. Þetta er örlítið skárri niðurstaða en búist var við. Á sama tíma er verðbólga í hæstu hæðum og mælist hún 3,5%.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir Megan Green, sérfræðingi hjá bandaríska greiningarfyrirtækinu Roubini Global Economics, að Spánverjar séu á milli stafs og hurðar. Þótt hagtölurnar séu betri en vænst var þá sé staðan í efnhagslífinu almennt slæm. Skuldir hins opinbera í himinhæðum, sveitarstjórnir á kúpunni og fjórði hver maður án atvinnu.

Hún bendir á, að hagtölurnar blekki mönnum sýn og geti valdið misskilningi. Ástáæn fyrir því að landsframleiðsla dróst ekki meira saman sé sú að stjórnvöld frestuðu fyrirhuguðum aðgerðum, svo sem hækkun virðisaukaskatts sem boðaður var í síðasta mánuði. Guardian bætir því við, að fyrirhuguð hækkun hafi skilað því að kaupæði rann á Spánverja sem hafi keypt sér nýja bíla og aðrar dýra hluti áður en hækkunin átti að taka gildi.