Stjórnvöld á Spáni ætla að láta reyna á lánshæfi sitt á erlendum lánsfjármörkuðum í dag og kanna hvort fjárfestar hafi áhuga á því að kaupa ríkisskuldabréf upp á tvo milljarða dala, jafnvirði 1,6 milljarða evra. Talsvert ríður á að einhver kaupi bréfin þar sem orðrómur hefur verið á kreiki að stjórnvöld verði að leita á náði þeirra sem halda utan um neyðarsjóð evruríkjanna til að koma bönkum sínum til bjargar.

Álag á spænsk ríkisskuldabréf til tíu ára hefur verið í hæstu hæðum og hafa þeir þurft að greiða sem nemur 6,7% álag á ríkisskuldir sínar. Eftir að fréttir bárust út þess efnis að stjórnvöld séu að fóta sig á lánsfjármörkuðum lækkaði álagið lítilega og er það nú komið niður í 6,1%, samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins, BBC, um málið.

Stærstu bankar Spánar hafa ekki komið vel undan lánsfjárkreppunni enda er stór hluti af veðum þeirra bundinn í fasteignum sem hafa fallið mikið í verði eftir að spænska eignabólan sprakk.

Skuldabréfaútgáfan sem fyrirhuguð er í dag er aðeins dropi í hafið fyrir spænska banka en nauðsynlegt þykir að leggja þeim til 80 milljarða evra til að vega upp á móti afskiftum og eignatapi.

Þess er skemmst að minnast að fjármálaráðherra Spánar sagði í vikunni dyr alþjóðlegra lánsfjármarkaða lokaða Spánverjum og verði þeir að fara bónleið til Brussel eftir fjármagni til að bæta eiginfjárhlutföll bankanna. Aðrir ráðamenn á Spáni hafa hins vegar vísað öllu slíku á bug og bent á að sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi ekki lokið athugun sinni á styrk- og stöðugleika spænska bankakerfisins.