Það ætti að skylda vogunarsjóði til þess að upplýsa um þær skortstöður sem þeir hafa tekið, segir Neil Barnett í grein í breska vikuritinu The Spectator. Þannig væri komið í veg fyrir markaðsmisnotkun af þeirra hálfu líkt og íslensku bankarnir virðast hafa orðið fyrir barðinu á.

Barnett segir íslensku viðskiptabankanna þrjá – Kaupþing, Landsbanka og Glitnir – fræga fyrir það hversu hratt þeir hafi stækkað á undanförnu árum.

Að sama skapi hafi verið eftir því tekið í hversu miklu mæli þeir hafi reitt sig á peningamarkaði til að fjármagna sig í stað innlána – eitthvað sem hafi minnt óþægilega mikið á Northern Rock.

Þrátt fyrir að eignir bankanna séu um átta sinnum meiri en sem nemur vergri landsframleiðslu Íslands, þá segir Barnett að bankarnir hafi að sumu leyti verið íhaldssamir: „Þeir hafa ekki, að því er virðist, fjárfest í skuldabréfavafningum með tengsl við undirmálslán sem hafa valdið svo mörgum fjármálastofnunum beggja vegna Atlantshafsins miklum vandræðum”.

„Afbakaður” markaður með skuldatryggingar

Í grein Spectator er haft eftir Richard Portes, hagfræðiprófessor við London Business School, að vogunarsjóðirnir hafi samtímis tekið bæði skortstöðu í íslensku krónunni og hlutabréfamarkaðnum. Þetta hafi orðið til þess að knýja Seðlabanka Íslands til að hækka stýrivexti, sem aftur olli því að gengi hlutabréfa lækkaði, segir Portes.

Hann bætir því við að hér komi einnig til sögunnar markaðurinn með skuldatryggingar, sem að sögn Portes er „mjög afbakaður” um þessar mundir.

Að mati Portes er skuldatryggingaálagið á íslensku bankana „fáranlega hátt”. Portes bætir því við að „á einum tímapunkti hafi það staðið í þúsund punktum, þannig að kostnaðurinn við að tryggja 1 milljón dala nam hundrað þúsund dölum. Það gefur til kynna að allir íslensku bankarnir færu í þrot á næstu fimm árum, eitthvað sem flestir markaðsaðilar telja afskaplega ólíklegt.”

Það sem spákaupmennirnir eru að gera, segir Portes, er að taka skortstöðu í íslensku krónunni og hlutabréfamarkaðnum, samfara því að reyna að tala upp skuldatryggingaálagið á bankanna.

Barnett segir að það sé því athyglisvert í þessu samhengi að skoða aðgerðir eins vogunarsjóðs – hann var ekki í hópi þeirra sem var boðið af Bear Stearns til Íslands í janúar – í lok marsmánuðar.

Fram kemur í frétt Spectator að blaðið hafi heimildir fyrir því að einn hluthafi sjóðsins hafi hringt í að minnsta kosti tvo einstaklinga, sem hafi báðir ítök á mörkuðum, og sagt þeim að íslensku bankarnir væru að renna í þrot.

Barnett segir að hann hafi gefið til kynna að innlánsreikningar Kaupþings og Landsbanka í Bretlandi – IceSave og Kaupthing Edge – væru viðkvæmir fyrir bankaáhlaupi, sambærilegu því og henti Northern Rock síðasta sumar.

„Hroki, árásargirni og laumuspil” vogunarsjóða

Heimildarmaður blaðsins innan breska fjármálaeftirlitsins staðfestir að stofnunin hafi fengið upplýsingar um nokkur tilfelli þar sem um var að ræða símtöl frá þessum tiltekna vogunarsjóði. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar enn ekki hafið rannsókn á málinu.

Spectator segist ekki geta gefið upp nafnið á sjóðnum á þessum tímapunkti vegna hættu á lögsókn af hans hálfu. Blaðið segir að það séu fleiri dæmi af vogunarsjóðum sem hafi ráðist á fjármálastofnanir með því að taka skortstöðu í þeim og á sama tíma komið af stað röngum orðrómi í fjölmiðlum – eitthvað sem er á öllum tímum saknæmt.

„Í núverandi lánsfjárkreppu, þegar sjálft fjármálakerfið riðar til falls, jafngildir slíkt hryðjuverkum á fjármálamarkaði”, segir Barnett.

Hann ásakar vogunarsjóði sem stunda slíka starfsemi um „hroka, árásargirni og laumuspil”. Sumir vogunarsjóðir, heldur Barnett fram, virðast telja sér trú um að þeir starfi á yfirráðasvæði þar sem ekki gilda neinar félagslegar, siðferðislegar eða lagalegar skyldur.

Hann segir að margir vogunarsjóðir birti jafnvel ekki opinberlega upplýsingar um heimilsfang sitt né heldur gefi þeir upplýsingar um hvernig hægt sé að setja sig í samband við þá.

Í þeim tillfellum sem fjölmiðlamenn ná að hafa uppi á þeim vilja þeir ekkert við þá tala – enda þótt sumir virðast eiga auðvelt með að bera út óhrekjanlegar lygar til fjölmiðla þegar slíkt hentar þeim.

Ekki frelsi til að stunda skemmdarverkastarfsemi

Barnett segir að frjálsir fjármálamarkaðir séu eftirsóknarverðir – þeir bæði auki lífsgæði og auðlegð fólks. Hann bæti því hins vegar við að það sé vafasamt að teygja út skilgreininguna á frjálsum markaði með því að halda því fram að það innihaldi „frelsi til stunda skemmdarverkastarfsemi gagnvart fjármálastofnunum og ráðast gegn fullvalda ríkjum”.

Að endingu bendir Barnett á að bankar þurfi reglulega að upplýsa um útlánahlutfall sitt til seðlabanka og/eða fjármálaeftirlitsins. Hann spyr því: „Af hverju er ekki hægt að skylda vogunarsjóði til að upplýsa um stöðu þeirra – þá sérstaklega þær skortstöður sem þeir hafa tekið – til sömu yfirvalda?”