Veiking krónunnar á fyrri hluta árs hefur sett mark sitt á fjölda uppgjöra. Gengisþróun er mikilvægur áhrifaþáttur í rekstri flestra fyrirtækja, sem ýmist hafa hluta tekna sinna eða gjalda í erlendri mynt og því þarf engan að undra að 17% veiking krónunnar frá áramótum hafi sett mark sitt á uppgjörin en gengisvísitalan sem stóð í tæplega 105 stigum í upphafi ársins var komin í 134,2 stig í lok annars ársfjórðungs.

Þrátt fyrir að flest félögin, sem skráð eru í Kauphöll Íslands, hafi skilað góðum uppgjörum er sá viðsnúningur sem orðið hefur á gengi krónunnar áþreifanlegur á mörgum uppgjörum en er þó meira áberandi þegar þegar litið er til uppgjöra óskráðra fyrirtækja. Að mati sérfræðinga er það eðlileg þróun að minni fyrirtæki, sem hafa mikinn hluta skulda sinna í erlendri mynt, séu viðkvæmari fyrir sveiflum á gengi krónunar. Skráð félög hér á landi eru mjög alþjóðleg í sniðum og því að ákveðnu leyti ónæmari fyrir þessum áhrifum.

Viðsnúningur líklegur á þriðja ársfjórðungi

Haraldur Yngvi Pétursson, sérfræðingur hjá greiningardeild Kaupþings banka, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að gengi krónunnar hafi á þessu ári sveiflast með mun ýktari hætti en oft áður í kjölfarið á löngu styrkingarferli. Haraldur segir að miklar sveiflur á gengi krónunnar geti haft úrslitaáhrif á afkomu margra félaga á einstökum fjórðungum.

Þannig hafði veiking krónunnar á fyrstu tveimur fjórðungum ársins neikvæð áhrif á hagnað þeirra fyrirtækja sem gera upp í íslenskum krónum en eru með skuldir í erlendri mynt. Á móti kemur að fyrir þau félög sem eru með stærstan hluta tekna í erlendi mynt og kostnað í innlendri mynt eru áhrifin á rekstur og sjóðstreymi jákvæð. Í styrkingarferli er þessu öfugt farið.

Haraldur Yngvi segir nauðsynlegt að hafa í huga að veður skipast fljótt í lofti á gjaldeyrismarkaði og nefnir til að mynda að það gengistap sem mörg félög gjaldfærðu vegna hækkunar langtímaskulda gæti auðveldlega breyst í hagnað á þriðja ársfjórðungi og þannig haft jákvæð áhrif á afkomuna, en krónan hefur styrkst um rúm 8% nú þegar tveir mánuðir eru liðnir af þriðja ársfjórðungi.

Spennandi haust fyrir krónuna

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá greiningu Glitnis, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að sérstaklega athyglisverðir tímar væru framundan á gjaldeyrismarkaði nú þegar einn mánuður væri eftir af þriðja ársfjórðungi. "Framundan eru mikið af viðburðum og tilkynningum um hagtölur sem geta togað krónuna í gagnstæðar áttir," segir hann.

Sem dæmi um þetta nefnir Jón Bjarki að framundan sé stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans þann 14. september og strax í kjölfarið munu fyrstu krónubréfin falla á gjalddaga en Jón Bjarki telur að þessi óheppilega tilviljun gæti sett aukna pressu á Seðlabankann . Allt bendir til þess að gjalddagi krónubréfanna gæti leitt til útflæðis krónunnar og í kjölfarið nokkurrar gengisveikingar.

Einnig nefnir Jón Bjarki að vaxtamunurinn við útlönd sé ennþá mikill og allt bendir til þess að svo framarlega sem hann haldist með svipuðu sniði munu erlendir aðilar hafa áhuga á krónubréfum og stöðutökum í krónunni sem veldur styrkingu hennar. Jón Bjarki segir að ákveðinn viðsnúningur hafi nú orðið hvað varðar viðhorf erlendra aðila til fjárfestinga í svokölluðum hávaxtamyntum og allt útlit sé fyrir að áhugi á slíku sé að glæðast að nýju nú þegar útlit er fyrir að það muni hægja á vaxtahækkunum í Bandaríkjunum, Japan og Evrusvæðinu. Bloomberg fréttastofan greindi meðal annars frá því síðastliðinn mánudag að nú sé rétti tíminn til að fjárfesta í krónunni þar sem allar líkur séu fyrir að gengið muni enn styrkjast um 5-6% til áramóta.