Þóra Eggertsdóttir hóf störf sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá flugfélaginu Play í síðustu viku. Hún mun meðal annars leiða fyrirhugaða skráningu félagsins á Nasdaq First North markaðinn.

„Ég er spennt að taka þátt í uppbyggingu hjá flugfélagi sem er í startholunum og fá þar tækifæri til að hafa áhrif á þróun félagsins frá byrjun. Einnig er skráning félags eins og Play á markað spennandi áskorun fyrir alla fjármálastjóra.“ Þóra þekkir flestar hliðar flugbransans en hún var áður forstöðumaður innanlandsflugs hjá Icelandair og þar áður fjármálastjóri Air Iceland Connect.

Árið 2010 stofnaði Þóra sprotafyrirtækið Puzzled by Iceland, sem selur vandaða minjagripi, ásamt Guðrúnu Heimisdóttur en þær voru saman í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík.

„Við höfðum báðar í tvígang verið á sama tíma í fæðingarorlofi með stuttu millibili og ákváðum að nýta tímann til í að búa til eitthvað nýtt og hugmyndin um Puzzled by Iceland kom upp úr því. Mér fannst einstaklega skemmtilegt að byggja fyrirtækið upp frá grunni og heillaðist af nýsköpunarheiminum,“ segir Þóra.

Þær lentu í öðru sæti í Gullegginu árið 2011 og voru í kjölfarið sendar út til Hollands að taka þá í viðburði sem er í líkingu við sjónvarpsþáttinn Shark Tank þar sem þær kynnu fyrirtækið fyrir fjárfestum. Þóra steig frá fyrirtækinu árið 2015 er hún skráði sig í MBA nám í Háskólanum í Reykjavík en Guðrún rekur fyrirtækið áfram í dag.

Þóra bjó í Japan árin 2005-2008 og starfaði á þeim tíma m.a. hjá Morgan Stanley. „Ég var í raun að elta ástina,“ segir hún, spurð um ástæðuna á baki Japansdvalarinnar. Bjarni Örn Kærnested, eiginmaður hennar sem hún kynntist í gegnum karate, hafði fengið styrk til að fara til Japans í MBA nám og Þóra ákvað að fylgja honum út að loknu námi sínu í Barcelona.

„Svo gekk ótrúlega vel að fá vinnu sem kom skemmtilega óvart eftir að hafa farið út í mikla óvissu. Þetta var einstök upplifun og ég mun búa að henni alla tíð. Mér fannst virkilega skemmtilegt að kynnast menningunni og hefðunum í Japan og hefði alveg getað búið þarna lengur,“ segir Þóra en þau ákváðu að snúa heim til Íslands þegar hún átti von á þeirra fyrsta barni.

Þóra og Bjarni eiga tvö börn, Alexöndru Björk og Eggert Aron sem eru 12 og 11 ára gömul. Fjölskyldunni finnst fátt skemmtilegra en að fara í bústað á Flúðum. Þau eru einnig að stíga sín fyrstu skref saman í golfi en Þóra keppti í íþróttinni á yngri árum.

Þar að auki tilheyra hjónin vinahóp með mikla ævintýraþrá. Ásamt skíðaferðum og fjallgöngum tekur hópurinn gjarnan upp á einhverju nýju, nú síðast þyrluskíði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .